Hefndarklám

Höfundur: Gísli Ásgeirsson

**VV**

Hefndarklám er kynferðislega gróft efni sem miðlað er á netinu án samþykkis þess sem þar sést á mynd í þeim tilgangi að auðmýkja eða niðurlægja viðkomandi, skv. skilgreiningu CCRI, sem lítur einnig á slíka dreifingu sem ákveðið form kynferðisofbeldis.

Oftast eru það fyrrverandi makar/sambýlingar eða hakkarar sem dreifa slíku efni og er algengt að þau sem sjást á myndunum hafi tekið þær. Með myndunum fylgja oft persónulegar upplýsingar, þar á meðal fullt nafn viðkomandi, tengingar á Facebook og samfélagsmiðla eða heimilisföng. Hérlendis hefur þetta ekki gengið svo langt en tilvikin eru nógu slæm eins og fréttir undanfarinna vikna sýna:

hefndarklam

1. 5 ungir menn eru taldir hafa nauðgað 16 ára stúlku í samkvæmi. Helsta sönnunargagnið er myndband sem einn þeirra tók upp með farsíma sínum og sendi síðan öðrum. Ekki er vitað um umfang dreifingarinnar en þeir munu síðar hafa reynt að eyða því.

2. Í viðtali við Fréttablaðið segir ung kona frá því að mynd af henni í samförum var komið í almenna dreifingu. Hún vissi ekki af því þegar rekkjunautur hennar tók myndina sem fór síðan víða, var meðal annars dreift í Háskóla Íslands og varpað upp á skjávarpa.

3. „Svonefndar 4Chan síður hafa oft ratað í fjölmiðla hérlendis en þar birta notendur myndir af íslenskum stúlkum og biðja um myndir á móti. Oft fylgir fullt nafn viðkomandi stúlku, sveitarfélag og skóli. Flestar virðast vera undir tvítugu og dæmi eru þarna um myndir af stúlkum allt niður í 13 ára aldur.”

Það fyrsta endar væntanlega fyrir dómstólum. Ekki er vitað hvort unga konan í dæmi 2 hyggst kæra en varðandi 4Chan-síðurnar hefur lögregla ekki gert annað en að reyna að láta loka þeim. Erfitt er að kæra þar sem síðurnar eru vistaðar utanlands og íslenskir notendur og dreifendur eru þar í skjóli nafnleyndar. Þar að auki spretta jafnan upp nýjar síður þegar öðrum er lokað og minnir þessi barátta yfirvalda á verkefni Sysifosar. Í öðrum löndum er andófið komið lengra.

Í janúar varð Ísrael fyrsta ríkið sem flokkar hefndarklám sem kynferðisbrot. Sama gildir um Victoriufylkið í Ástralíu. Í Brasilíu er í undirbúningi löggjöf um hefndarklám og hafa frumvörp um slíka lagasetningu verið sett fram í 27 ríkjum Bandaríkjanna (sjá hér).

Alræmdasta hefndarklámsíða netsins var stofnuð 2010, IsAnyoneup.com, þar sem Hunter Moore birti efni sem notendur lögðu til. Þar birtust líka auðkennandi upplýsingar eins og nöfn, vinnuveitendur, heimilisföng og tenglar á samfélagsmiðla. Þess eru dæmi að Hunter Moore hafi kúgað fé af þolendum þessa netofbeldis og var hann loks kærður og síðunni lokað.

Nýjasta dæmið hérlendis er reynsla Tinnu Ingólfsdóttur sem lýsti henni í grein á vefsíðunni freyjur.is og flestir fjölmiðlar tóku upp í ítarlegri umfjöllun. Þolendur dreifenda hefndarkláms lenda iðulega í því að sitja uppi með skömmina en Tinna skilaði henni eftirminnilega til þeirra sem dreifinguna stunda.

Lög um persónuvernd og meðferð upplýsinga 77/2000 kveða m.a. á um að með persónuupplýsingar sé farið í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs.  Þar segir einnig í 2. grein laganna að undir viðkvæmar persónuupplýsingar falli upplýsingar um kynlíf manna og kynhegðan og er vinnsla þeirra og meðferð bönnuð nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Í lögunum er ekki að finna neitt sem réttlætir eða styður miðlun eða dreifingu á ofangreindu efni og hljóta þá þeir sem verða fyrir barðinu á dreifingu að geta leitað réttar síns fyrir dómstólum.

Halda mætti að hefndarklám mætti almennri andstöðu og fordæmingu alþýðu manna. En talsmenn tjáningarfrelsis standa jafnan sína vakt og dómstólum er óljúft að framfylgja lögum sem setja tjáningarfrelsi skorður. Þá er orðum eins og ritskoðun, þöggun og kúgun einnig veifað. Undir slíkum ásökunum er erfitt að sitja. En meðan tjáningarfrelsið er misnotað markvisst til að kúga, niðurlægja og lítilsvirða aðra fyrir engar sakir, er vandséð hvernig hægt er að sitja hjá og bregðast ekki við.

2 athugasemdir við “Hefndarklám

  1. Bakvísun: 4chan: ekki fórnarlamb | *knúz*

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.