Markaðsvætt ofbeldi gegn konum – ræða Tönju Rahm I

**TW/VV**

tanja-rahm

Tanja Rahm

 27. ágúst 2014 hélt Tanja Rahm ræðu í Finnlandi þar sem hún talaði opinskátt um vændisheiminn og menninguna sem heldur honum á lífi. Hún er meðlimur og ein opinberra talsmanna SPACE International, sem eru samtök fyrir þolendur vændis. Ræðan er hér þýdd og birt með góðfúslegu leyfi hennar. Þetta er fyrri hluti af tveimur.

Þakka ykkur kærlega fyrir að taka á móti mér í dag. Ég er hér fyrir hönd SPACE International, hóp þolenda, sem samanstendur af og stendur fyrir þolendur vændis frá löndum um allan heim.

Eins og við vitum öll er verið að ræða vændi í næstum öllum löndum í heiminum. Sum lönd hafa nú þegar tekið afstöðu með því að glæpavæða kúnnana og melludólgana. Svíþjóð, Noregur, Ísland og Frakkland eru góð dæmi um slíkar aðgerðir. Í öðrum löndum er rætt hvort það eigi að lögleiða melludólgana, vændishúsin og kaupin á kynlífi, eða hvort það ætti að taka upp „sænsku leiðina“. Ef ég á að vera hreinskilin, þá skil ég ekki forsendurnar fyrir þessari umræðu, því mér þykir hún snúast um forréttindi ofdekraðra kvenna og ímynduð réttindi kúgandi karla. Þegar fólk talar um réttinn til að velja er það að verja konur sem hafa raunveruleg tækifæri, því ef þær hefðu í raun frjálst val gætu þær valið eitthvað annað. Milljónir kvenna og barna um allan heim hafa hins vegar ekki þetta frjálsa val, búa ekki við þau forréttindi. Þau koma frá fátækum löndum og eru neydd í vændi, einungis til að geta brauðfætt fjölskyldur sínar. Þau fara út fyrir landsteinana og eru misnotuð, beitt ofbeldi, nauðgað og nýtt sem tekjulind. Þetta fólk er sterkustu rökin fyrir innleiðingu sænsku leiðarinnar.

Eins og þið hafið kannski gert ykkur grein fyrir eru konur farnar að verða samtaka og skipuleggja sig. Konur sem eiga eitt sameiginlegt: reynslu af vændi. Ég var sjálf vændiskona í 3 ár, byrjaði þegar ég var 20 ára gömul. Og ég vil segja ykkur nokkuð um valfrelsi, því enginn þvingaði mig líkamlega í vændi. Ég valdi ekki að alast upp í fjölskyldu með drykkfelldum og ofbeldisfullum stjúpföður. Ég valdi ekki að vera beitt kynferðislegu ofbeldi þegar ég var 10 ára gömul af manni sem var á fimmtugsaldri, sem snerti líkama minn, smeygði höndunum undir pilsið mitt og á milli fótleggjanna á mér. Það var heldur ekki mitt val þegar ég var 11 ára og karlmaður elti mig upp stigagang þar sem hann seildist upp undir pilsið mitt og snerti klofið á mér. Ég valdi ekki að vera nauðgað af kærasta sem var 2 árum eldri en ég þegar ég var 12 ára gömul. Ég valdi ekki að vera misnotuð kynferðislega þegar ég var 13 ára gömul af manni í lest eða inni á almenningsklósetti, ég valdi það ekki þegar ég var 14 ára eða 17 ára. Allt þetta er eitthvað sem ofbeldismennirnir völdu að gera mér. Þegar maður elst upp í heimi þar sem þú sem stúlka eða ung kona getur ekki fundið fyrir öryggi, því svo mörgum karlmönnum finnst þeir hafa réttinn til að misnota börn og ungar konur, brýtur það þig niður sem manneskju. Þú ert heilaþvegin til að halda að þú hafir ekki réttinn til að segja NEI, að þú hafir ekki umráðaréttinn yfir þinni eigin kynverund, að kynverund þín sé eign karla hvenær sem þeim finnst þeir hafa þörf fyrir hana. Þegar ég valdi að byrja í vændi var það í raun ekki frjálst val, því mér fannst ég ekki eiga sjálfa mig eða mína eigin kynverund. Ofbeldismenn völdu mér þetta hlutverk. Þeirra val fékk mig til að halda að ég væri einungis hlutur til að seðja þeirra langanir.

"Pashca" í Berlín - stærsta vændishús í Evrópu.

„Pashca“ í Berlín – stærsta vændishús í Evrópu.

Í hvert skipti sem karlmaður kom í vændishúsið til að borga mér fyrir að fullnægja honum leið mér eins og ég væri einhvers virði. Ekki vegna hans, ekki vegna þess sem fram fór, heldur vegna peninganna. Peningarnir tældu mig lengi vel. Létu mér líða eins og ég væri í raun einhvers virði. Saga mín er ekki einstök. Í Danmörku hafa margar fyrrverandi vændiskonur verið að segja sögur alveg eins og mínar. Flestar þeirra völdu að fara í vændi vegna kynferðisofbeldis í æsku. Aðrar voru seldar af feðrum sínum eða stjúpfeðrum sem barnavændiskonur. Ef ykkur finnst það gera vændi á fullorðinsárum að frjálsu vali, þá þarf ég að uppfræða ykkur svolítið um hugtakið valfrelsi.

Þegar þú ert barn áttu þér drauma, svo marga drauma. Þú vilt verða leikkona, söngkona, þú vilt vinna í nammibúðinni, í dýragarðinum eða í leikfangabúðinni, eða kannski viltu verða geimfari og fara út í geim, vinna í sirkus, verða rithöfundur, dansari eða lögreglukona. Enginn af þessum draumum felur í sér kynferðislega hegðun. Ef þú elst upp í ástríkri og áreiðanlegri, en afar varfærinni, fjölskyldu gefur það þér heilbrigð tækifæri. Það gefur þér sjálfstraust og kennir þér að þú hefur réttinn til að segja nei, og að þú getir valið að vera hvað sem þig langar til. Engin heilbrigð fjölskylda myndi kenna sínum eigin börnum að gefa frá sér kynverund sína, nema það væri á jafnréttisgrundvelli og veitti þeim ánægju. Enginn vill vera vændiskona vegna vændisvinnunnar. Þegar fólk velur vændi er það því það sér engin önnur tækifæri að velja um, vegna lélegs sjálfsálits, vangetu til að segja nei, fátæktar, ofbeldis eða ýmiss konar geðheilsuvandamála. Þegar fólk sér vændi sem val, eða sem kynferðislega frelsun, eða  heldur í fúlustu alvöru að konur raunverulega njóti þess að vera vændiskonur, er það að horfa á vændi í gegnum himnu sjónhverfinga og lyga.

Vændi er markaðsvætt ofbeldi gegn fólki, oftast konum. Konur eru notaðar og beittar ofbeldi í fjölmiðlum, auglýsingum, tölvuleikjum, tónlistarmyndböndum, kvikmyndum og klámi. Þær eru hlutgerðar og misnotaðar á svo marga vegu. Og það sem þessi iðnaður gerir er að láta konur halda að það sé eðlilegt að vera notaðar, að það sé eðlilegt að þær séu hlutgerðar, að kynverund kvenna sé gerð til þess að kaupa hana og selja. Í raun taka þessi fyrirtæki þátt í vændiskerfinu.

Nú skal ég segja ykkur hvernig vændi virkar. En fyrst vil ég vitna í fyrrum vændiskonuna og stofnmeðlim SPACE International, Rachel Moran, úr ræðu hennar í Noregi þann 8. mars á þessu ári. Hún sagði:

Það er ekkert sem heitir kynlífsvinna. Það sem fer fram á í hóruhúsunum hefur mjög lítið með kynlíf að gera, og alls ekkert með vinnu að gera. Þetta er kúgun!“

Í janúar á þessu ári birtist kanadísk grein um málið þar sem m.a. var rætt við sænska rithöfundinn Kajsa Ekis Ekman, sem skrifaði bókina Being and being bought. Þegar ég las um hennar sýn á vændi varð það loksins ljóst fyrir mér hvað það er sem gerir vændi svo hrikalega skaðlegt. Þetta er það sem hún segir:

„Þegar við tölum um vændi, erum við að tala um tegund af „kynverund“, þar sem einn aðilinn vill ekki vera í kynferðislegum aðstæðum svo hinn aðilinn þarf að múta henni. Hún er að samþykkja peningana, ekki kynlífið. Ef þú segir við hvaða vændiskonu sem er: „Þú hefur tvo valkosti: annaðhvort getur þú tekið við peningunum og einfaldlega farið, eða þú getur tekið peningana og verið áfram fyrir kynlífið,“ hvað heldurðu þá að margar þeirra myndu velja að vera kyrrar?“

Hún segir líka:

„Ef þú hefur tvær manneskjur sem vilja stunda kynlíf, þá borgar enginn, en ef einungis önnur manneskjan vill kynlífið, þá er það ekkert kynlíf. Þess vegna getur vændi aldrei verið um kynferðislegt frelsi.“

Og svo segir hún það sem mér fannst áhrifamest:

„Ég kalla vændi lygi. Ég tók viðtal við konu sem var í vændi og hún sagði: „Allt í lagi. Þú getur sagt að vændi sé starf, en ef það væri rétt, veistu hvernig það væri? Það væri eins og að rúnka gaur á meðan hann er að horfa á klám. Þú þyrftir ekkert að þykjast, þú þyrftir ekki að stynja, og þú þyrftir ekkert að segja við hann. Þú myndir bara gera það á vélrænan hátt.“ Vændi er ekkert í líkingu við þetta. Í vændi þarf manneskjan sem verið er að selja að þykjast vera þarna því hana langi til þess, þegar henni er borgað mun hún reyna af alefli til að þykjast vera þarna því hún elski það. Hún segir við hann: „Oh ég er að fá það, þú ert bestur, þú ert svo kynþokkafullur, þú kveikir í mér“ og fleira slíkt. Hún gerir sitt besta til að láta hann gleyma að hann er að borga henni. Þannig að já, endilega – gerum þetta að starfi sem er eins og önnur störf, en þá fáum við líka að liggja þarna hreyfingarlausar. Leyfum öllum konunum að liggja þarna og gera ekkert og horfa bara á úrin sín og sjáum þá hversu vel karlmönnum líkar það. Vændi er lygi. Það er ofureinföldun að halda því fram að þetta sé bara starf.“

Og þetta er það sem sjónhverfingin snýst um. Hvernig er hægt að tala um að lögleiða iðnað þar sem ofbeldi, morð, nauðganir og kynferðisleg áreitni eru svona algeng? Í Þýskalandi hafa 39 vændiskonur verið myrtar frá því að ríkið lögleiddi melludólga og vændishús. 127 vændiskonur hafa verið myrtar í Hollandi, 6 myrtar í Nýja Sjálandi, þar sem kaup á vændi, melludólgar og vændishús teljast einnig lögleg. Hljómar þetta eins og öruggt umhverfi? Hljómar þetta eins og lögleiðing á melludólgum gefi vændiskonum meira öryggi? Sænska leiðin er ekki ástæðan fyrir því að vændiskonur njóta ekki öryggis. Ástæðan fyrir því eru mennirnir sem kaupa þær. Það eru kaupendurnir sem eru nauðgarar, eru ofbeldisfullir, misnota og eru árásargjarnir. Og þeir eru ástæðan fyrir því að við þurfum að vernda þessar konur. Það sem sænska leiðin gerir er að segja vændiskonum að ríkisstjórnin viti hvað fram fer í tengslum við vændi, viti af ofbeldinu, og að lögin hafi verið sett til að vernda þær. Ekki til að ofsækja þær. Og það segir kaupendum að það sem þeir gera sé ofbeldi og misbeiting sem valdi öðrum skaða og þess vegna sé það bannað.

Eftir eitt ár í vændi hafði verið brotið á mér á svo marga vegu að ég þjáðist af kvíða og þunglyndi. Ég vildi losna. En það sem vændiskerfið gerði var að hafa tilfinningar mínar að engu. Enginn sagði við mig „Leyfðu mér hjálpa þér að finna leið út úr vændinu.“ Það sem þau gerðu í staðinn var að sannfæra mig um að enginn kæmist út, aldrei nokkurn tíma. Eftir tvö ár í vændi gat ég varla stigið fæti inn í herbergið þar sem kúnninn beið eftir mér. Þau sögðu mér að allt yrði miklu auðveldara ef ég fengi mér bara smá kókaín. Svo ég gerði það. Eftir þrjú ár í vændi vildi ég binda enda á líf mitt. Enginn í vændiskerfinu vill sleppa taumhaldinu af þér ef þú getur aflað þeim peninga. Svo lengi sem þú ert gróði sem laðar kúnna að hóruhúsinu munu þau aldrei sleppa þér, því í þessu kerfi hugsar enginn um þig sem manneskju. Þú ert kynlífsvél, sem gerir hóruhúsið að hagkvæmum viðskiptum fyrir eigendurna. Áratugum saman hefur umræðan um vændi snúist um vændiskonurnar. En eina ástæðan fyrir því að vændi er til er að karlmenn vilja kaupa það. Það eru karlmennirnir sem sniglast í kringum hóruhúsin. Það eru karlmennirnir sem beita vændiskonurnar ofbeldi. Og það eru kröfur karla sem kynda undir mansali. En umræðan snýst aldrei um þessa menn.

Þegar vændi er rætt á opinberum vettvangi eru margir dónalegir, grimmir, tala niður til fólks og eru ógnandi og ruddalegir. Afar fáir karlar viðurkenna opinberlega að þeir séu í hópi þerira sem kaupa vændiskonur. Þó sýndi skýrsla frá Danmörku á seinasta ári að 15,5% danskra karlmanna á aldrinum 18-65 ára höfðu keypt vændi. Miklum meirihluta þeirra var alveg sama hvort konan sem þeir keyptu hefði sannanlega verið þvinguð í vændi eða ekki. Í Þýskalandi eru um 400.000 vændiskonur sem þjóna um 1,2 milljónum karlmanna á hverjum degi. 3 af 5 þessara kvenna koma frá Austur Evrópu. Flest hóruhúsanna eru í eigu karlmanna sem græða milljónir á milljónir ofan á neyð fólks, en kalla sig nú stjórnendur, sölumenn, framkvæmdarstjóra og kaupsýslumenn. Það er ekki nóg með að eigendurnir misnoti vændiskonurnar, heldur tekur ríkisstjórn Þýskalands virkan þátt í ofbeldinu. Ríkisstjórnin misnotar vald sitt með því að leita vændiskonurnar uppi á hóruhúsunum og á götunum, og skylda þær til að greiða aukagjald fyrir að fullnægja kúnnum, og það eftir að skattar hafa verið dregnir af þeim. Þegar vændi varð að risaiðnaði í Þýskalandi óx eftirspurnin og framboðið jókst að sama skapi. Fátækar stúlkur voru fluttar inn frá öðrum löndum til að þjóna kaupendum. Gangverðið hríðféll og nú þurfa vændiskonur að sætta sig við 150 evrur á vakt, sama hversu mörgum kúnnum þær hafa þjónað. Í heimildamynd um vændi í Þýskalandi árið 2013 sagði fyrrverandi vændiskona frá Austur-Evrópu að hún hafði verið þvinguð til að þjóna allt aðr 40 karlmönnum á hverjum degi, og hefði ekkert haft um það að segja. Hverjum þjónaði þessi lögleiðing þá? Hún þjónaði kúnnum, melludólgum og ríkisstjórninni. Ekki vændiskonunum.

Elísabet Ýr Atladóttir þýddi.

2 athugasemdir við “Markaðsvætt ofbeldi gegn konum – ræða Tönju Rahm I

  1. Já, þessi kyn-orð geta þvælst ansi oft fyrir manni 🙂 Kynverund er íslenska þýðingin á sexuality, og nær yfir kynhneigð (sexual orientation), sjálfsmynd sem kynvera (sexual identity), kyngervi (gender roles) og kynímynd (gender identity).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.