Bræði, brjóst, bylting: Úr dagbók geðilla femínistans

Höfundur: Sigríður Guðmarsdóttir

 

Á fimmtudaginn varð brjóstabylting á Íslandi.

Ég frétti af því í daginn áður á Facebook að ungar stelpur ætluðu að fylla netið af myndum af geirvörtunum á sér. Yfirlýst markmið gerningsins er valdefling, að stuðla að líkamsvirðingu og vinna gegn hefndarklámi. Mér leist strax illa á þetta verkefni.

Vita þessar ungu konur ekki að internetið gleymir engu?  Koma þær ekki til með að sjá eftir þessu að hafa tekið af sér myndir og birt opinberlega?  Verður þetta ekki olía á eld feðraveldisins sem allt verður að vopni? Ég skrifaði strax hvassan og gáfulegan status á Facebook og fékk hinn hressilegasta þráð á tímalínuna sem logaði í allan miðvikudaginn og fimmtudaginn.

Svo gerðist það. Það varð bylting, þrátt fyrir það að ég væri búin að vara sterklega við henni.

Bare Reality ©Laura Dodsworth

Bare Reality ©Laura Dodsworth

Twitter fylltist af brjóstum og gleðióp gengu um facebook. Ég sat heima hjá mér úti í Noregi við skýrslugerð, alein á íþróttabol og fóðruðum brjóstahaldara og skalf af reiði. Það er nefnilega svo furðulegt að eftir því sem gleðin yfir brjóstunum varð meiri á samfélagsmiðlum, varð ég reiðari og reiðari. Og ég veit ekki út af hverju. Ég varð alveg heltekin af þessu, skrifaði nokkra kaldhæðnislega statusa og fullt af athugasemdum. Undir kvöld var ég alveg að springa af bræði og mælti varla orð frá munni við eiginmanninn, sem hafði eldað handa mér pasta. Hann var örugglega að hugsa um geirvörtur.

Af hverju verður gallharður femínisti pirraður þegar ungar stelpur gera eitthvað á samfélagsmiðlum sem þeim finnst valdeflandi?

Kannski kalla þessar myndir fram gamla og djúpstæða öfund frá mínum unglingsárum, hvað mér var illa við falleg brjóst af því að sjálf var ég flatbrjósta eins og fjöl og leið fyrir það?

Kannski þoli ég ekki að ung kona sé stolt af brjóstunum á sér?

Kannski pirrar mig þessi umræða um að brjóst séu bara fyrir börn að borða vegna þess að mér gekk ömurlega að mjólka þegar ég var ungbarnamóðir?

Kannski er einhver djúpstæður brjóstasýmbólismi á bak við það að mér gekk frekar illa við skýrslugerðina í dag.

Kannski er ég pirruð vegna þess að ungar stelpur föttuðu upp á einhverju sem ég skil ekki. Ég var unglingur fyrir internet, hvað veit ég um hefndarklám, rafrænt öryggisleysi og allt það ljóta sem ungar stelpur upplifa. Það eina sem ég get rifjað upp sem er eitthvað í líkingu við reynsluheim brjóstabyltingar á Twitter eru berbrjósta Polaroidmyndir af sólarlandaferð á Ibiza á áttunda áratugnum. Og svo þegar við stelpurnar í guðfræðideildinni ljósrituðum á okkur brjóstin í aðalbyggingu Háskólans. Eða nei, sleppum því annars.

Kannski er ég reið yfir því að stelpurnar voguðu sér að finna upp á femínískum gjörningi sem ég og mín kynslóð var ekki búin að blessa.

Hvernig voga þær sér að láta að því liggja að ég skilji þær ekki, femínistinn sjálfur! Er verið að segja að ég sé tepra og móralisti? Er verið að segja að ég skilji ekki ungt fólk, að það sé komið kynslóðabil, tíunda bylgja femínismans runninn upp og ég hafi ekki fengið minnisblaðið? Hvernig dirfist þið!

FreeTheNipple 2Í kvöld fór ég í minn fyrsta jógatíma á ævinni. Þar var fullt af ungum stelpum á jógamottum sem ég gaut augunum illilega á. Ég var stirðust, andstuttust, með lélegasta jafnvægið og með vindgang. Þetta ekkisens pasta. Og ég varð ennþá pirraðri út í ungu stelpurnar sem voguðu sér að gera jógaæfingarnar sínar óaðfinnanlega. Þetta var eiginlega þeim að kenna.

Við vorum látnar anda inn…..og út. Inn…..og út. Inn….og..út og gera æfingu sem heitir köttur.

Og þegar ég var búin að gera örugglega tvöhundruð kryppur og baða út höndunum eins og þyrluspöðum í að reyna að halda jafnvægi svolitla stund, þá fór ég að hugsa um stelpurnar heima, sem voru svo glaðar og birtu á sér brjóstin af því að þær eru orðnar hundleiðar á því að verða klámgerðar. Og ég hugsaði um að það gerir ekkert til þótt ég fatti ekki byltinguna. Það er ekkert menntaskólastelpum nútímans að kenna að ég var með komplexa yfir brjóstunum á mér sem unglingur og gat ekki mjólkað sem móðir. Þetta framtak á hinu herrans ári 2015 snýst nefnilega ekkert um mig. Ég þarf heldur ekkert að segja ungum stelpum að internetið gleymi engu, þær lifa í ógn þeirrar þekkingar hvern dag. Það er líka allt í lagi þótt ég hafi ekki fengið minnisblaðið að síðustu bylgju femínismans. Það er kannski einmitt hluti af því að vaxa og þroskast í sinni hugmyndafræði að maður reyni ekki um of að stýra henni eða stýfa vængina af þeim sem eftir koma. Annars verður maður byltingin sem étur börnin sín þegar þau tísta um brjóstin á sér á Twitter. Og þess vegna er það fínt að ungar konur geri það sem þeim sýnist og lifi lífi sínu lifandi og sé skítsama um það sem mér finnst.

Undir lok jógatímans tókst mér með miklum erfiðismunum að smeygja fingrunum undir tærnar standandi. Hafið það ungu stelpur. Þegar þið póstið rassinum á ykkur á Twitter skal ég vera með.

Lesið einnig hugleiðingar Brynhildar Björnsdóttur um Frelsun týrbjöllunnar, hér á Knúzinu!

12 athugasemdir við “Bræði, brjóst, bylting: Úr dagbók geðilla femínistans

 1. Ekki veit ég hvað þú ert gömul en greinilega hefur þú misst af hippatímabilinu líka. Þá brenndu ungar konur brjóstarhaldarana sína, sýndu brjóstin ber við ýmis tækifæri. Margar okkar áttu ekki brjóstarhaldara í mörg ár. Sú bylting breytti engu og kannski gerir þessi það ekki heldur. Skiptir ekki máli. Dropinn holar steininn. Einu sinni máttu konur ekki sýna ökla – hvað þá kálfa og læri voru bara varla sýnd nokkrum manni.

  Hvers vegna fólk breytist í tuðara með aldri yfir baráttu, fjöri og líkamsfegurð ungs fólks er mér hulin ráðgáta – nema þetta sé öfund eins og þú segir, sem hlýtur að vera hræðilegt að upplifa. Legg til þú sættist við lífið þitt OG brjóstin. Gleðilega páska !

 2. okei… ég skil að foreldrar hafa áhyggjur af börnunum sínum en það er ekki og verður aldrei góð hugmynd að fara yfir myndirnar þeirra sem þau senda strákum/stelpum eða bara inna einhverja vefsíðu. Þetta er hennar/hans ákvörðun og henni/honum er alveg skítsama þótt að fólk sjái það. En að fara yfir allar myndirnar og senda þær inná síður til að reyna að láta krakkana skammast sín, það er ógeðslegt.

 3. Bakvísun: Áfram berbrystingar! | Knúz - femínískt vefrit

 4. Bakvísun: Ekki þín drusluganga | Knúz - femínískt vefrit

 5. Ég spyr nú bara eins og fávís kona; hversvegna eru konur jafnt sem karlar að setja á myndband eða mynda yfirleitt bera líkama sína. Er það eitthvað „trend“ á þessum tímum að eiga myndbandsupptökur af sjálfum sér við mök? Og annað; Er það líka „inn“ að það skipti öngvu traustið á milli elskenda; og finnst konum jafnt sem körlum
  eftir stutt kynni í lagi að láta bólfélaga sinn mynda sig alls konar stellingum?

 6. Takk fyrir góðan pistil Sigríður. Ég er líka ein af þeim sem fattaði ekki þess byltingu fyrst, það tók mig heilan dag, en þvílíkir snillingar! Bergljót, maður þarf einmitt að þekkja þann raunveruleika sem ungar stelpur í dag búa við, þær meiga alveg taka myndir af sér ef þeim sýnist og ábyrgð hemdarklámsins er þeirra sem nota myndirnar í annarlegum tilgangi. Alveg eins og við meigum klæða okkur eins og við viljum en ábyrgð gerenda ofbeldis er þeirra sama hvernig við eru klæddar.

 7. Bakvísun: Knúzannállinn 2015 | Knúz - femínískt vefrit

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.