Skortur á punglyndi

mottumars

Höfundar: Gísli Ásgeirsson og Halla Sverrisdóttir

krabbaleitNú er mottumars um land allt. Þetta er þjóðleg hefð, líkt og þorrinn, páskarnir og jólin. Í mottumars safna karlmenn hormottu á efri vör, greiða hana og snyrta, snúa upp á enda og útvega sér skeggvax. Keppnisskapið er svo mikið að sumir byrjuðu að efna í alskegg í haustbyrjun og rökuðu svo allt nema efri vörina fyrsta mars. Skv. reglum ÍSÍ er þetta þjófstart ef allir eiga að byrja sléttrakaðir. Þetta er umtalað í fjölmiðlum og karlar hefja upp raust sína og belja „Hraustir menn“ svo að bárujárnsveggir nötra og testósterónið svellur í vefjum. Þeir svara hreystikallinu. Í marslok verður flottasta mottan valin og áheitasöfnun skeggprúðra gerð upp. Allt er þetta ljómandi skemmtilegt og krúttlegt á köflum og strákarnir syngja vel. Ef maður vissi ekki betur, gæti myndbandið verið vegna söfnunar fyrir félagsheimili úti á landi eða keppnisferð boltaíþróttaliðs til Túrkmenistan eða Færeyja. Heilsufarsþátturinn hefur einhvern veginn orðið útundan.

Raunar má segja að annar og ekki síður karlmannlegur þáttur hafi orðið útundan, því sú karlmennska sem þarna er sýnd er afskaplega heterónormatíf. Í hreystikarlakórnum eru vissulega mjúkar manngerðir og væn hnefafylli af listamannstýpum og þeir koma úr ýmsum stéttum og samfélagslögum, en enginn þeirra er opinberlega hinsegin.

Vefsíða átaksins er mottumars.is og þar þarf að smella nokkrum sinnum til að finna raunverulega tilganginn, sem fór ekki á milli mála á útmánuðum 2010, þegar fyrsti mottumarsinn var haldinn. Þá var vefsíðan karlarogkrabbamein.is mikið auglýst.

Hér er þreifað á eistum.

Hér er þreifað á kirtli.

Árið 2010 var mikið talað um eistu, ristil og blöðruhálskirtil. Engin merki sjást um þessi ágætu líffæri á forsíðu átaksins nú og merki Krabbameinsfélagsins er hvergi sjáanlegt, einu ummerkin um það eru vefslóð félagsins og tengiliðaupplýsingar með smáu letri, neðarlega á síðunni.  Það sem var auglýst feimnismál 2010 ber sjaldan  á góma  2014 því áherslan er á sönginn, mottuna, hreystina, karlmennskuna og allt sem prýða þykir hrausta menn. Punglyndið vantar.

Það þýðir ekkert annað en að tala beint úr pokanum um þetta. Hraustir menn þurfa að skreppa til læknis, ræða málin, jafnvel láta hann fara næmum fingrum um punginn og eistun. Líka þreifa upp í ristilinn. Þetta á ekki að vera feimnismál. Allt í lagi að krydda boðskapinn smá kímni en þetta er kjarni málsins. Ekki skeggsídd, lengd, fegurð eða söngur með dimmum karlaróm. Við þurfum punglyndi.

Til samanburðar er vefsíða Bleiku slaufunnar, sem helguð er brjóstakrabbameini og forvörnum. Þar er tilgangur strax ljós. „… að auka árvekni og vitund um krabbamein í konum.“ Nóg af ábendingum og fróðleiksmolum, enda konur líklega taldar vanari því að láta segja sér fyrir verkum. (mynd: skjáskot af síðunni)

bleikaslaufan

Málefnið að baki mottumars-átakinu er gott og útfærslan vekur athygli. En þegar upphaflegi tilgangurinn verður útundan og drukknar á stundum í söng og skeggmælingum, er tilvalið að rifja upp þessi myndbönd sem fylgja greininni og fara fram á örlítið meira punglyndi í marsmánuði.

 

 

 

 

 

2 athugasemdir við “Skortur á punglyndi

  1. Get ég fengið útskýringu afhverju innleggi mínu var eytt ?

    Er það krafa að fólk sé sammála þráðum hérna að öllu eða mestu leiti ?

    Veit ekki til þess að ég hafi sýnt neinn dónaskap ?

    • Til þess að fá svör samþykkt verður þú að skilja eftir alvörutölvupóstfang og æskilegt væri að þú notaðir alvöru nafn Pell/PalliValli. Við rekum þolendavæna stefnu á knúz.is og stundum þarf að vera hægt að ná í fólk persónulega vegna ummæla þeirra. Til dæmis hefði verið ákjósanlegra að veita þér þessar upplýsingar í persónulegum skilaboðum, en þar sem tölvupósturinn er gervi er það ekki hægt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.