Höfundur: Katrín Harðardóttir
„Ég held að öldum saman hafi öll samtöl milli karls og konu […] byrjað á því að karlinn segi, „ekki trufla mig“.“1
Victoria Ocampo (1890-1979)
Þessi tilvitnun frá argentíska útgefandanum og skáldinu Victoriu Ocampo er úr ræðu sem hún hélt árið 1935 og heitir „Konan og hennar tjáning“2. Setningin er lýsandi fyrir viðhorf hennar til kvenréttinda og stöðu konunnar á fyrri hluta 20. aldar. Staða Victoriu var þó langtum skárri en flestra samtíðarkvenna, eins og raunin var um marga forkólfa femínismans. Hún rakti ættir sínar aftur til landvinninganna svokölluðu, afar hennar í báðar ættir tóku þátt í sjálfstæðisbaráttu Argentínu, og hún tilheyrði því pólitískri elítu landsins, fámennisstjórninni. Þrátt fyrir forréttindin settu foreldrar hennar sig upp á móti því að hún lærði til leikhúss eins og hún lagði hug til, heldur skyldi leita frama innan hjónabands. Það varð ekki farsælt og um fertugt var Victoria orðin ekkja, eftir tíu ára fjarsambúð. Vegna óreiðu hjónalífsins var hún álitin „persona non grata“ af kaþólsku kirkjunni, en má segja að Victoria hafi bætt sér upp skort á kirkjulegu samneyti með kunningsskap við rithöfunda og annað listafólk.
Árið 1926 öðluðust argentískar konur viss borgaraleg réttindi með ákveðnum skilyrðum, þær þurftu að vera annaðhvort ógiftar, skildar eða ekkjur. Victoria naut góðs af nýjum lögum, gat ráðstafað föðurarfi sínum eftir eigin höfði og stofnaði móderníska bókmenntatímaritið Sur árið 1931 og útgáfu undir sama nafni tveimur árum seinna, þá nýorðin ekkja. Skiljanlega giftist hún ekki aftur, en við það hefði hún þurft lögbundið leyfi eiginmanns til þess að reka fyrirtækið. Allt frá upphafi voru gefin út rit, og í tímaritinu birtist efni eftir marga helstu rithöfunda Ameríku og Evrópu. Sur var því áríðandi hlekkur á milli álfanna, á síðum tímaritsins var rætt og rifist um heimspeki og hugmyndafræði sem hafði mikil áhrif á heimsmenningu síðustu aldar. Síðasta eintakið af Sur kom út árið 1992 og lifði því skapara sinn og vel það.
Victoria var einnig meðal stofnenda Bandalags argentískra kvenna (Unión Argentina de Mujeres) árið 1936 og gegndi hún formennsku þess tvö fyrstu árin. Takmark Bandalagsins var að verja þau litlu réttindi sem konur höfðu eignast tíu árum áður. Baráttan fólst í ræðu og riti eins og tilvitnunin hér að ofan ber merki um, hvar Victoria skilgreinir það sem hún kallaði „karllægt eintal“, þ.e. þann hátt sem karl gefur tjáningu sinni. Hún harmaði að karlinn skyldi ekki finna hjá sér þörf til þess að eiga orðaskipti við konuna, svo svipaða mannveru honum sjálfum en á sama tíma honum svo frábrugðin. Karlinn léti sér nægja að tala við sig sjálfan og nokk sama hvort einhver hlustaði.
Svo segir sagan að þegar Perón samþykkti lög um kosningarétt kvenna árið 1946 hafi Victoria reiðst heiftarlega yfir því að öðlast þennan rétt frá svo ólýðræðislegri ríkistjórn. Hún var alla tíð gagnrýnin á á stjórnarhætti hans og annarra herforingja landsins, svo mjög að hún var fangelsuð árið 1953, á öðru valdatímabili Perón. Eftir þrýsting frá alþjóðasamfélaginu, þar á meðal forsætisráherra Indlands, Jawaharlal Nehru og Aldous Huxley, var henni sleppt. Um miðbik aldarinnar gekk á ýmsu í stjórnmálum Argentínu og leitaði Victoria skjóls í Sur en þegar leið á sjötta áratuginn var framlagi hennar til menningarlífs landsins veitt verðskulduð athygli og árið 1977 var hún valin meðlimur argentísku menntaakademíunnar, Academia Argentina de Letras, fyrst kvenna.
Heimild: Queirolo, G. (2009). Victoria Ocampo (1890-1979): Cruces entre feminismo, clase y elite intelectual. Clío & Asociados (13), 135-159.
Creo que, desde hace siglos, toda conversación entre el hombre y la mujer […] empieza por un „no me interrumpas“ de parte del hombre.
„La mujer y su expresión“.