Femínismi er tunglganga: að spyrja karl um börnin hans

Höfundur: Björn Þorláksson

Ég starfa á tveimur fjölmiðlum. Annar er Akureyri vikublað með yfirlýsta femíníska ritstjórnarstefnu. Hinn fjölmiðillinn er Stundin. Án þess að Stundin segi svo með yfirlýstum hætti, að ritstjórnarstefna blaðsins sé femínísk stefna, birtast mér áherslur þess fjölmiðils sem svo. Ég reyni í störfum mínum fyrir báða miðlana að vera meðvitaður um að jafnrétti er ekki náð hér á landi. Ég reyni að hafa í huga að viðhalda ekki hvað þá lyfta undir hugmyndir um gamaldags og úreltar kynjastaðreyndir með efnistökum mínum.

Eitt dæmi um þetta er að stundum reyni ég meðvitað að brjóta upp eigin frumhugmynd að viðmælanda/heimild, t.d. ef fjölmiðill sem ég starfa fyrir hefur ákveðið að gera frétt og valið stendur um að hringja (sem dæmi) í einn af fimm körlum sem gegna sambærilegu embætti eða þá hringja í einu konuna sem gegnir sömu stöðu og karlarnir og hafa svör eftir henni.

Eimir enn eftir af hræðslu karla um aldamótin þarsíðustu?

Eimir enn eftir af hræðslu karla frá því um aldamótin þarsíðustu?

Ef karlarnir fimm fá í öllum fjölmiðlum landsins alltaf að tjá sig en konan aldrei, mun kynjahlutfallið í viðkomandi valdastöðum að líkindum haldast óbreytt áfram. Þá verða áfram fimm karlar og ein kona í valdastöðunni eftir fimm ár. Konan e.t.v. aðeins upp á punt. Þá gæti sú staða komið upp að ef konan fengi þó einu sinni tækifæri til að tjá sig í sjónvarpsfréttum eitt kvöldið yrðu margir áhorfenda svo hissa á að sjá konuna tala sem áhrifamanneskja, að umræðan gæti farið að snúast um hverju konan í viðtalinu klæðist. Fremur en að almenningur gefi því raunverulega gaum hvað hún er að hugsa og segja. Fyrirmyndarleg áhrif konunnar gætu því orðið önnur en fyrirmyndarleg áhrif karlanna. Vegna þess að konan er gauksungi í umræðunni. Þannig verður það þangað til jafnrétti verður náð.

Þrátt fyrir femíníska áherslu verður mér ítrekað á í störfum mínum. Andi hins innmúraða og vel tengda blaðakarls í heimi hinna innmúruðu valdakarla, átópælotið, svífur ómeðvitað yfir vötnunum. Ekki síst í tímahraki þegar bera þarf fréttamál undir heimild og skrifa útkomuna strax. Ég er að jafnaði kunnugri körlum en konum í vinnusímaskránnni minni, bæði vegna þess að karlarnir í skránni eru miklu fleiri en konurnar, en einnig vegna t.d. mýtunnar sem liggur eins og lús í hnakka og hvíslar að mér að karlar tjái sig hraðar en konur, þess vegna hringi blaðamaður frekar í karl en konu ef tveir kostir bjóðast. Því fylgi skilvirkni þegar tveir kunnugir karlar ræði saman!

Ég held að lúsarhvíslið sé eftiráskýring, bábilja, ég held að skýringin sé alibi til að réttlæta kassalaga hefðarvaldshugsun blaðamanna, alibi tengt hagsmunum eða alibi tengt áhugaleysis blaða- og fréttamanna að auka hlut jafnréttis í fjölmiðlum. Ég hef upplifað að skrifa einn daginn leiðara um þessa bábilju (til að hvetja sjálfan mig og aðra kollega til að við tökum okkur á.) Næsta dag dett ég svo sjálfur í gamla pyttinn. Það tekur tíma að breyta heiminum og þar er maður sjálfur ein helsta fyrirstaðan. Þess utan er ignorance algjört bliss. Sá sem fer út í geiminn lítur eigin plánetu öðrum augum en áður frá bæjarlæknum heima. Það getur orðið verulega truflandi ef nýjar og gagnrýna spurningar banka upp á hjá manni. Það truflar stundum vinnufriðinn!

Mr_mom2

Myndin sýnir framkvæmdastjóra á framabraut.

Einmitt út af öllum þeim yfirsjónum sem ég geri mig enn sekan um í störfum mínum varð ég hissa og glaður þegar fram fór í vikunni umræða á þræðinum Fjölmiðlanördar vegna viðtals í öðrum þeirra fjölmiðla sem ég starfa fyrir. Ég hafði sem blaðamaður rætt við formann valdmikillar stjórnar, karl sem stóð á tímamótum. Á Fjölmiðlanördum var vitnað til spurningar sem ég hafði spurt í viðtalinu. Í athugasemdinni á umræðuþræðinum sagði: „Karlkyns blaðamaður spyr karlkyns viðmælanda sinn þessarar spurningar: „Þú átt fimm börn og þar af þrjú ung. Konan þín [ ] er afkastamikill rithöfundur, rannsakar lestur barna og kennir kennaranemum. Hefur álagið e.t.v. verið aðeins of mikið hjá ykkur síðustu misseri? Á það þátt í að þú gefur ekki kost á þér áfram til þessara starfa?“

Í umræðum um spurninguna komu fram eftirfarandi ummæli: „Venjan er sú að spyrja konur þessara spurninga, ekki karla.“

Ég hafði ekki áttað mig á fyrr en ég las þessi ummæli að spurningin kynni að vera eitthvað nýtt. Konur eru iðulega spurðar um tengsl opinberra starfa við fjölskyldu og heimili og hvort það skarist. Ef konur eru frekar spurðar um það en karlar eru konur frekar en karlar gerðar ábyrgar fyrir velferð fjölskyldunnar. Þær gera þá ekki annað á meðan.

Það er gott þegar aðrir benda manni á að lítil en ný skref fyrir blaðamenn og blaðakonur geti stundum orðið að þýðingarmeiri skrefum fyrir mannkyn.

Hin femíníska ganga er nefnilega tunglganga.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.