Skuggahliðar athugasemdanna

Netníð fer vaxandi um allan heim. Um 70 milljónir athugasemda hafa verið skráðar á vefsvæði Guardian í Bretlandi síðan 2006 og við úttekt á þeim kom í ljós að af þeim tíu höfundum sem mestan óhróður fengu voru átta konur og karlarnir tveir voru svartir.  Í þessari umfjöllun er rætt við þrjá höfunda, rýnt í gögnin og því velt upp hvernig bæta megi skoðanaskipti á netinu. Þetta er mikið efni og fróðlegt og vel þess virði að lesa.

Hér verður stiklað á stóru en í upphafi segir:

jessicavalenti„Athugasemdir gera lesendum kleift að bregðast strax við grein, spyrja spurninga, benda á villur eða veita nýjar vísbendingar. Í sinni bestu mynd eru athugasemdaþræðir ígrundaðir, upplýsandi, fyndnir: netsamfélög þar sem lesendur eiga samskipti við blaðamenn og aðra með þeim hætti sem auðgar blaðamennskuna.

Í sinni verstu mynd eru þær ekkert af þessu.

Guardian var ekki fyrsti netmiðillinn sem bauð upp á athugasemdir og ekki sá eini sem komst að því að sumar eru ruddalegar, fordómafullar eða hreinlega lúalegar.

Úttekt á umræðuþráðunum leiddi í ljós það sem konur í hópi blaðamanna hafði lengi grunað: greinar eftir konur fá meira níð og fyrirlitningu en greinar eftir karla, án tillits til efni greinanna.

Þótt meirihluti fastra pistlahöfunda Guardian séu hvítir karlar, verða þeir ekki fyrir mesta níðinu og fyrirlitningunni eins og bent er á í upphafi. Þar verða konur verst úti. Þeir tíu sem fá minnst af níðinu eru allir karlar.

Hvernig geta stafrænir miðlar brugðist við þessu? Sumir segja að lausnin sé einföld „ekki lesa athugasemdirnar“ eða mæla með að lokað sé fyrir þær alfarið. Það hafa margir gert því eftirlit með þeim var of tímafrekt.

En í mörgum tilvikum auðga viðbrögð lesenda blaðaskrifin. Af hverju ætti þá að loka alfarið fyrir athugasemdir þegar vandamálið er lítill minnihluti lesenda? Guardian ákvað að kanna vandann í stað þess að skrúfa fyrir. Í gagnagrunni netútgáfunnar voru 70 milljónir athugasemda og einkum var litið á þær sem hafði verið loka á af umræðustjórum, alls 1.4 milljónir sem voru í trássi við reglur Guardian. Flestar innihéldu að einhverju leyti níð (móðgandi orðalag eða strámennsku) eða voru svo út í hött að þær afvegaleiddu umræðuna. Umræðustjórar loka ekki á athugasemdir þótt þeir séu þeim ósammála, aðeins þær sem uppfylla ekki lágmarkskröfurnar.

Í sinni verstu mynd er netníð í formi hótana að drepa, nauðga eða limlesta. Það reyndist afar fátítt og var tafarlaust lokað á það og höfundur bannaður. Öllu algengari voru niðurlægjandi og móðgandi athugasemdir sem beindust að höfundinum persónulega eða að höfundi annarrar athugasemdar. Þær eru algengar á öllum netmiðlum hvort sem er og á Guardian var lokað á þær.“

NesrinemalikLesendur knúzz eru hvattir til að gefa sér tíma til að rýna í úttekt Guardian. Rúmt ár er síðan virk umræðustýring var tekin upp á vefritinu okkar og þar var stuðst við sömu viðmið og íslenskir vefmiðlar hafa notað, sem og viðmið Guardian og annarra stórra miðla. Þessi ákvörðun ritstjórnar knúz.is vakti litla hrifningu sumra sem töluðu um fasisma, ritskoðun, vitnuðu í Stalín og veifuðu ákaflega fána tjáningarfrelsis. Þetta gerðu virtir pistlahöfundar og einnig þeir sem þótti afar miður að geta ekki lengur ausið úr rotþró hugsana sinna í skjóli nafnleysis. (Það er líka tjáningarfrelsi, sem einhverjir vilja verja fram í rauðan dauðann). Reglurnar má lesa hérna:

Þar segir í niðurlagi:

Þetta er ekki ritskoðun. Þetta er ritstýring. Við berum virðingu fyrir tjáningarfrelsinu og rétti fólks til að segja skoðun sína en við þurfum ekki að bera virðingu fyrir skoðunum sem slíkum.  Þessi vettvangur er opinber en á um leið að vera öruggur, á sama hátt og heimili manns á að vera laust við óboðna gesti sem láta dólgslega og kúka jafnvel á forstofugólfið.  Við þurfum ekki útúrsnúninga, kvenfyrirlitningu og þolendaskömm.

Á netinu eru ótal leiðir til að fá útrás fyrir tjáningarþörf og allir sem lyklaborði geta valdið, geta stofnað blogg, skráð sig á Facebook og birt skoðanir sínar á öllu milli himins og jarðar, tekið fagnandi á móti skoðanasystkinum sínum og hunsað allar ábendingar sem hér hafa komið fram.

Þýðing og samantekt: Gísli Ásgeirsson

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.