Kajsa Ekis Ekman skrifar:
Hvað eiga Elton John, Sarah Jessica Parker, Ricky Martin og Nicole Kidman sameiginlegt? Að mati glanstímaritsins Glamour Magazine er svarið við því að öll eignuðust þau börn með hjálp staðgöngumóður. Og svona fréttum fylgja undantekningarlaust ljósmyndir af pörum með börnin sín í fanginu, ljómandi af gleði. Ég hefði aðspurð svarað öðruvísi: „Þau taka öll þátt í barneignavændi (reproductive prostitution) og barnamansali.“
Staðgöngumæðrun eða „samningur um meðgöngu“ felur í sér að kona er annað hvort sædd, eða fósturvísi er komið fyrir í legi hennar. Þegar hún fæðir níu mánuðum síðar lætur hún barnið af hendi til pöntunarforeldranna – og nær alltaf í skiptum fyrir peninga. Síðan á áttunda áratugnum hafa rúmlega 25 þúsund börn fæðst í Bandaríkjunum með staðgöngumæðrun. En þessari starfsemi er í sívaxandi mæli útvistað til landa eins og Indlands, Úkraínu, Taílands og Mexíkó. Á Indlandi einu er staðgönguiðnaðurinn metinn á rúmlega 450 milljónir bandaríkjadala. Um allan heim standa þjóðir frammi fyrir spurningunni: Skal banna eða setja lög um staðgöngumæðrun?
Fjölmiðlar draga að mestu upp þá mynd af staðgöngumæðrun að þar græði allir. Að barnlaus hjón/pör geti látið drauminn um barn rætast og fátækar konur geti aflað sér tekna með því að hjálpa öðrum. Tímaritið Hello! hafði eftir Elton John að staðgöngumæðrun „fullkomnar fjölskyldu okkar á dýrmætasta og fullkomnasta háttinn.“ Vanity Fair fjallar um Ricky Martin og tvíburana hans, þar sem Ricky segir: „Ég myndi fórna lífi mínu fyrir konuna sem hjálpaði mér að koma sonum mínum í heiminn.“ Og Nicole Kidman segir: „Fjölskylda okkar nýtur blessunar… Engin orð fá lýst ótrúlegu þakklæti okkar til allra … og þá einkum til fósturberans“ (gestational carrier). Ricky og Nicole forðast að nota orðið „móðir“ þegar þau segja frá konunum sem gengu með börnin fyrir þau. Þakklæti viðtakenda í staðgöngusamningum er flaggað sem velgengni en felur í raun eðlislægt valdaójafnvægi fyrirkomulagsins: foreldrið er það sem borgar, ekki sú sem gengur með barnið.
Heimspekingar og félagsfræðingar eins og Helena Ragoné, H.M.Malm og Christine Sistare segja staðgöngumæðrun vera álíka jákvæða en lýsa henni sem leið til að „rjúfa líffræðilega viðmiðið,“ til að afbyggja kjarnafjölskyldur og gagnkynhneigð norm og að „gera konum kleift að ná út fyrir hömlur fjölskylduhlutverka þeirra.“ Þessar tvær frásögur virðast stangast á en styðja samt báðar staðgöngumæðrun.
En staðgöngumæðrun er langt frá því að vera frelsandi. Sem femínisti og mannhyggjusinni færi ég rök fyrir því að staðgöngumæðrun er nýtt form fyrir kúgun kvenna, og eigi meira sameiginlegt með vændi en halda mætti. Kynlífsiðnaðurinn gerir kynverund kvenna að verslunarvöru og staðgöngumæðrun gerir frjósemi kvenna að verslunarvöru. Elizabeth Kane (bandarísk staðgöngumóðir sem varð andstæðingur staðgöngumæðrunar) hefur ritað að staðgöngumæðrun sé ekkert annað en tilfærsla á þjáningum frá einni konu til annarrar. Önnur konan þjáist því hún getur ekki orðið móðir, og hin konan gæti þjáðst alla ævi því hún fær ekki að þekkja barnið sem hún gekk með fyrir aðra. Staðgöngumæðrun gerir líka börn að verslunarvöru og er í raun barnaviðskipti.
Meðgönguviðskipti urðu til á áttunda áratugnum í Bandaríkjunum. Eftir tímamótaúrskurð Hæstaréttar í Roe v. Wade (1973) sem lögleiddi meðgöngurof, snarminnkaði framboð á nýburum til ættleiðingar. Þótt mörg bandarísk pör hafi ættleitt erlend börn vildu sum ekki ættleiða barn af öðrum uppruna. Brátt var farið að auglýsa eftir frjóum ungum konum sem vildu láta sæða sig og gefa barnið sem af því leiddi. Þessar auglýsingar voru oft frá eiginmönnum ófrjórra kvenna sem vildu eignast börn sem voru erfðafræðilega tengd þeim. Fyrirtæki spruttu upp til að sinna þessum nýja markaði og tengja saman barnlaus hjón og ungar konur, oft úr verkamannastétt. Á níunda áratugnum var þetta orðið að iðnaði þar sem rannsóknarblaðamenn á borð við Susan Ince, sem þóttist hafa áhuga á að verða staðgöngumóðir, flettu ofan af siðlausum aðferðum til að klófesta væntanlegar staðgöngumæður.
Þegar forræðisdeilur hófust eftir að margar staðgöngumæður, eins og Mary Beth Whitehead árið 1985, skiptu um skoðun eftir fæðingu, úrskurðuðu margir dómstólar í Bandaríkjunum að staðgöngumæðrunarsamningar væru ógildir, að réttur til barns væri ekki framseljanlegur gegn greiðslu og mæður hefðu réttláta kröfu til barna sinna. En staðgönguiðnaðurinn þróaði nýjar leiðir til að sniðganga dómstóla. Fyrirhugaðir foreldrar leigðu einnig egggjafa og því gekk staðgöngumóðirin með barn sem var ekki erfðafræðilega skylt henni. Þetta var kallað „fósturburður“ og í þeim tilvikum þar sem upprunamóðirin skipti um skoðun og vildi halda barninu, úrskurðuðu dómstólar að hún væri ekki móðir þess, heldur eingöngu „beri“(eða „hýsill“). Ígræðsla fósturvísa gerði iðnaðinum líka kleift að flytja til landa eins og Indlands -þar sem indversk móðir gat gengið með hvítt eða asískt barn fyrir miklu lægra verð. Þetta sagði indverska staðgöngumóðirin Salma í viðtali við Amritu Pande:
„Hver myndi velja að gera þetta? Ég hef fengið sprautuskammta fyrir lífstíð. Sumar innspýtingarnar í lærin voru mjög kvalafullar. Í upphafi varð ég að taka 20-25 töflur daglega. Ég er alltaf uppþembd. En ég veit að ég verð að gera þetta fyrir framtíð barnanna minna. Þetta er ekki vinna, þetta er majboori (nauðung). Líf okkar getur ekki orðið verra. Í þorpinu mínu höfum við ekki kofa til að búa í og enga uppskeru af ökrunum. Þetta starf er ekki siðlegt – bara eitthvað sem við verðum að gera til að komast af. Þegar við heyrðum af staðgöngumæðruninni áttum við engin föt eftir regntímann – bara ein klæði sem oft urðu blaut – og húsið okkar var hrunið. Hvað áttum við að gera?“
Í fyrra bönnuðu indversk stjórnvöld staðgöngumæðrun fyrir einhleypa útlendinga og samkynhneigð pör til að reyna að sporna við því að landið yrði paradís barneignatúrisma (reproductive tourism). Fyrir vikið hafa vaknað umræður um siðferði, kynvitund og skilgreiningar á því hvað telst vera „alvöru“ fjölskylda. Gagnrýnendur staðgöngumæðrunar eru sagðir íhaldssamir, siðapostular og á móti samkynhneigðum. Ég sem femínisti vil ekki að staðgöngumæðrun sé rædd út frá því hverjir væntanlegir foreldrar yrðu, heldur hvað staðgöngumæðrun er í raun. Þess vegna spyr ég: Er staðgöngumæðrun barneignavændi? Og: Er staðgöngumæðrun verslun með börn?
Mörgum bregður við fyrri spurninguna. Í fyrstu virðist staðgöngumæðrun vera öfugsnúningur á vændi: barneign án kynmaka, ekki kynmök án barneignar. Við sjáum myndir af sætum börnum og hamingjusömum fjölskyldum, ekki af seyrulegum vændishúsum. „Legið helga“ er sett á markað, ekki píkan. Í forgrunni er ímynd góðviljuðu Madonnunnar, ekki hórunnar. En þrátt fyrir að þarna skilji á milli er í báðum tilvikum verið að selja hluta af kvenlíkamanum og viðhalda þeirri hugmyndafræði að líkamar kvenna séu fyrir aðra til að nýta og kaupa. Okkur er sagt að konur þurfi að bjóða einhleypum körlum, fötluðum eða körlum með sérþarfir kynlíf – eins og kynlíf sé mannréttindi. Okkur er sagt að samkynhneigð pör, einhleypir karlar og ófrjóar konur þurfi að eignast börn – eins og barneignir séu mannréttindi. Í báðum tilvikum er konum skylt að láta undan: að hafa kynmök án þess að vilja það, að fæða börn án þess að hafa af þeim að segja. Konur eru gerðar að framleiðslutækjum: stunda kynlíf fyrir aðra, eignast börn fyrir aðra. Í báðum þessum iðngreinum eru konur verkfæri, ekki mannverur með eigin tilfinningar.
Sænska menntakonan Nina Bjork hefur ritað að eitt af merkjum um auðugt samfélag er að það á erfitt með að greina á milli langana og þarfa. Við lærum að þrá hluti sem við höfum ekki þörf fyrir og köllum þessar langanir þarfir. Og þessar svonefndu þarfir okkar verða æ sértækari: löngun í barneignir verður að rétti til að nota leg annarrar konu í okkar eigin tilgangi. Að baki þessara viðsjálu röksemda eru sterk og ruddaleg rök arðseminnar sem gerir efnuðum hópum allt of auðvelt að breyta löngunum sínum í sjálfgefin réttindi.
Seinni spurningin varðar börnin. Hér skilja leiðir með vændi og staðgöngumæðrun. Þetta snýst ekki lengur bara um kaupanda og seljanda, heldur einnig þriðja aðila: barnið. Í staðgöngumæðrun í viðskiptaskyni er barnið í raun gert að vöru. Móðirin fær greidda nokkur þúsund dali þegar hún afhendir nýfætt barnið. Þetta er kaup og sala á börnum. En jafnvel í staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er litið á börn sem vörur í viðskiptum samkvæmt samningi. Börnunum er neitað um réttinn til að vera með móðurinni sem gekk með þau í níu mánuði.
Bandarísk börn sem fæddust í fyrstu bylgju staðgöngumæðrunar innanlands á níunda áratugnum eru byrjuð að tjá sig. Jessica Kern er þrítug og berst fyrir því að banna staðgöngumæðrun. Hún sagði í viðtali við New York Post: „Ég kaus þetta ekki fyrir mig. Það er niðurlægjandi að hafa fæðst fyrir tilstilli ríflegrar greiðslu.“ Og „Brian“ segir í bloggi sínu Son of a Surrogate: „Já, ég er reiður. Mér finnst ég svikinn… Þetta er smán og mér finnst þetta ömurlegt. Þetta er ömurlegt fyrir okkur öll.“
Eru öll staðgöngubörn sama sinnis? Auðvitað ekki. En vitnisburður Jessicu og Brian ætti að fá alla til að hugsa sig um tvisvar varðandi staðgöngumæðrun. Ef við stöðvum ekki þennan iðnað verður hann álíka umsvifamikill og vændisiðnaðurinn. Í báðum tilvikum seilist auðhyggjan inn á grunngildi mennskunnar. Uppruni okkar er gerður að verslunarvöru. Staðgöngumóðir selur ekki „hlut“ sem hún framleiðir, heldur líkama sinn og barnið sitt.
Í annarri ógæfulegri endurspeglun vændis eru fregnir af konum sem seldar eru mansali til Taílands og Kína vegna staðgöngumæðrunar.
Þó við finnum til samkenndar með Elton John, Ricky Martin eða Nicole Kidman, verðum við að spyrja okkur sjálf: Er eitthvað í lífinu sem ætti ekki að ganga kaupum og sölum? T.d. það mikilvægasta af öllu: við sjálf, uppruni okkar, líkamar okkar? Ef svarið er já, hvet ég alla til að hjálpa við að stöðva staðgönguiðnaðinn áður en það er um seinan.
Kajsa Ekis Ekman er sænsk blaðakona og gagnrýnandi. Bók hennar Being and Being Bought: Prostitution, Surrogacy and the Split Self kom út hjá Spinifex Press, Melbourne, árið 2013. Greinin er þýdd af Gísla Ásgeirssyni og birt með hennar leyfi og birtist upphaflega hér. Ritstjórn Knuz.is vill einnig benda á aðrar greinar um staðgöngumæðrun sem birst hafa á vefritinu en þó einkum eftirtaldar:
Þessi pistill er, eins og góðum áróðurspistlum er ætlað, fullur af gildishlöðnum orðum, tilfinningaklámi og strámönnum, í þeim tilgangi að réttlæta það að svipta konur yfirráðum yfir eigin líkama. En ef við köfum ögn dýpra:
1
„„Hver myndi velja að gera þetta? Ég hef fengið sprautuskammta fyrir lífstíð. Sumar innspýtingarnar í lærin voru mjög kvalafullar. Í upphafi varð ég að taka 20-25 töflur daglega. Ég er alltaf uppþembd. En ég veit að ég verð að gera þetta fyrir framtíð barnanna minna. Þetta er ekki vinna, þetta er majboori (nauðung). Líf okkar getur ekki orðið verra. Í þorpinu mínu höfum við ekki kofa til að búa í og enga uppskeru af ökrunum. Þetta starf er ekki siðlegt – bara eitthvað sem við verðum að gera til að komast af. Þegar við heyrðum af staðgöngumæðruninni áttum við engin föt eftir regntímann – bara ein klæði sem oft urðu blaut – og húsið okkar var hrunið. Hvað áttum við að gera?““
Ég get ekki betur séð en að helsta vandamál þessarar konu hafi verið skelfileg örbirgð, sem staðgöngumæðrun var, með sínum kostum og göllum, útleið.
Getur verið að keppikeflið ætti ekki að vera að banna fátæku fólki að framfleyta sér, þegar flest sund sýnast lokuð, heldur að berjast gegn örbirgð sem skapar slíkar aðstæður?
2
„Bandarísk börn sem fæddust í fyrstu bylgju staðgöngumæðrunar innanlands á níunda áratugnum eru byrjuð að tjá sig. Jessica Kern er þrítug og berst fyrir því að banna staðgöngumæðrun. Hún sagði í viðtali við New York Post: „Ég kaus þetta ekki fyrir mig. Það er niðurlægjandi að hafa fæðst fyrir tilstilli ríflegrar greiðslu.“ Og „Brian“ segir í bloggi sínu Son of a Surrogate: „Já, ég er reiður. Mér finnst ég svikinn… Þetta er smán og mér finnst þetta ömurlegt. Þetta er ömurlegt fyrir okkur öll.““
Skildu Jessica og Brian raunverulega óska þess að þau hefðu aldrei fæðst?
3 Hugtakið „réttur“ fær ekki mjög samræmda meðferð.
„löngun í barneignir verður að rétti til að nota leg annarrar konu í okkar eigin tilgangi.“
Hver heldur því virkilega fram að einhver eigi rétt til að nota leg annarrar konu? Strámaður af beztu gerð.
og
4
„En jafnvel í staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni er litið á börn sem vörur í viðskiptum samkvæmt samningi. Börnunum er neitað um réttinn til að vera með móðurinni sem gekk með þau í níu mánuði.“
Hvað finnst okkur um rétt barna til að vera neitað um réttin til að vera með manninum sem lagði inn í sæðisbankann? Eru börn getin með aðstoð gjafasæðis líka vörur í viðskiptum og ber þá ekki með sama hætti að leggjast gegn slíkum? Það þarf ekki að véfengja rétt barnsins til foreldra. Spurningin er bara, hvaða foreldra?
5
„Í annarri ógæfulegri endurspeglun vændis eru fregnir af konum sem seldar eru mansali til Taílands og Kína vegna staðgöngumæðrunar.“
Hér er lýsing á því vandamáli að ríki tryggi ekki öryggi borgara sinna, eða landsmanna, gagnvart nauðung. Á því þarf að taka. Það eru grundvallarmannréttindi að vera laus undan nauðung. Og kærkomið að vera laus undan afskiptasemi þeirra sem þykjast vita betur en þú hvernig haga eigi sínu eigin lífi.
Mikið væri kærkomið að vera laus undan þessari endalausu afskiptasemi. Ef lífeyrissjóðurinn minn myndi ekki heimta að ég vinni fyrir einhvern sem getur borgað mér fullt af peningum (svo ég geti borgað vexti) myndi ég til dæmis vilja vera kennari. Ég fæ víst ekki að ráða því. Enginn sem getur lánað mér íbúð treystir mér til að meta sjálfur hvernig mínum tíma er best varið á þessari jörð.
Mæltu heilastur, Hörður og takk fyrir að koma að kjarnanum. Fátækt og örbirgð er einmitt rót svo margs ills og kemur í veg fyrir að margir geti hagað því eins og þeir hefðu kosið og neyðir þá til að velja leiðir sem þeir undir öðrum kringumsstæðum hefðu ekki valið. Til allrar hamingju fyrir þig er samt ekkert vald sem bannar þér að velja FLESTA aðra starfsframa en kennslu. Fyrir því frelsi þarf að berjast.
Áhugaverð grein en svolítið einhliða og gildishlaðin. Gert er ráð fyrir því að konur sem ákveði að gerast staðgöngumæður séu alltaf eða oftast hálf neyddar í hlutverkið. Ég leyfi mér að benda á grein sem ég skrifaði þar sem ég fjalla um málið frá öðru sjónarhorni.
http://skodun.is/2013/10/08/ad-gefa-liffaeri-eins-og-varahluti-hugleiding-um-stadgongumaedrun/
Þetta segi ég í niðurlagi greinarinnar:
„Ég dreg alls ekki úr því að staðgöngumæðrun er flókið siðferðisálitamál og það þarf að vanda til verka þegar og ef staðgöngumæðrun verður leyfð hér á landi í velgjörðarskyni.
Hvað sem gerist þá þarf umræðan að eiga sér stað og hún verður að vera yfirveguð. Í slíkri umræðu er ekki gagnlegt að blanda mjög ólíkum hlutum saman eða gera beinlínis ráð fyrir að konur geti ekki haft frjálsan vilja og upplýstar skoðanir. Umræða á slíkum forsendum mun aldrei skila neinum árangri.“
Gott að fá málefnalega athugasemd. Það er tilbreyting. Takk fyrir það.