Karlar, um karla, frá körlum, til …

Fréttir um karla skrifaðar af körlum eru langalgengasta forsíðuefni útbreiddra dagblaða í Bretlandi. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar sem Women in Journalism (Wij), samtök kvenna í blaðamennsku í Bretlandi hafa látið gera.

Samtökin stóðu fyrir rannsókn á forsíðum níu breskra dagblaða. Ólík blöð voru rannsökuð, bæði svokölluð gæðablöð á borð við Financial Times, sem og götublöð eins og Sun. Rannsóknin náði yfir mánaðarlangt tímabil.  Samtökin benda á að forsíður hafi ekki síst orðið fyrir valinu sem rannsóknarefni vegna þess að þær séu einskonar útstillingargluggi. Það efni sem þar birtist gefi skýra innsýn í þann heim sem blaðið kýs að birta lesendum og þau mál sem það setur í forgang.

Í rannsókn bresku fjölmiðlakvennanna var sjónum beint að þrem meginþáttum. Rannsakað var umfjöllunarefni forsíðufrétta, myndefni og hverjir það eru sem skrifa fréttirnar.

Meðal þess sem sérstaklega var rannsakað voru aðalforsíðufréttir blaðanna. Í ljós kom að 668 einstaklingar voru nefndir í þessum fréttum á tímabilinu sem rannsakað var. 84% þeirra voru karlar. Rætt var við flesta þeirra í tengslum við starf eða stöðu, en um 75% sérfræðinga sem nefndir voru í fréttunum reyndust karlkyns.

Hlutfall kvenna í þessum fréttum var 16%. Konur voru mun líklegri til að vera í viðtali sem fórnarlömb eða vegna frægðar. Nefna má að af þeim sem fjallað var um og féllu í flokk fórnarlamba í fréttunum voru 79% kvenkyns.

Í rannsókninni voru aðalmyndir á forsíðu líka greindar. Meira jafnfræði var með kynjunum í myndbirtingum og voru konur um 36% þeirra sem myndir birtust af á forsíðum, meirihluti myndanna var af körlum en nokkur hluti var blandaður.

Af þeim tíu einstaklingum sem oftast birtust á aðalfréttamynd á forsíðum blaðanna voru þrír kvenkyns einstaklingar, stúlkan Madeleine McCann, og systurnar Kate og Pippa Middleton.

Listinn yfir þá einstaklinga sem oftast birtust á aðalmynd á forsíðu er eftirfarandi:

1. Kate Middleton (19  sinnum)

2. Simon Cowell (13)

3. Nicolas Sarkozy (10)

4. Madeleine McCann (7)

5. Jeremy Hunt (7)

6. Vilhjálmur prins (7)

7. Pippa Middleton (7)

8. Francois Hollande (6)

9. Rupert Murdoch (6)

10. Fabrice Muamba (5)

Skýrsluhöfundar segja tvennt áhugavert við þessar niðurstöður. Í fyrsta lagi afhjúpi þær þá staðreynd að karlar séu mun oftar taldir fréttnæmir, enda sjö af tíu helstu myndefnunum karlar. Í öðru lagi varpi niðurstaðan ljósi á það hvernig konur gegni ákveðinni rullu í fréttaflutningi fjölmiðlanna. Í tilfelli karlanna virðist oftast sterk „fréttarök“ fyrir því að hafa þá á aðalmynd, t.d. Sarkozy, sem nýlega hafði tapað forsetakosningum. Hið sama verði ekki endilega sagt um konurnar. Nýr hattur eða kjóll í eigu Middleton-systranna virðist gera þær að forsíðumyndefni.

Þá má benda á að engan kvenkyns stjórnmálaleiðtoga er að finna á listanum yfir tíu helstu forsíðufréttamyndefnin.  Í umfjöllun Guardian um rannsóknina kemur fram að myndir sem birtar voru af konum í stjórnmálum hafi oft verið þannig að viðkomandi kom ekki vel út. Dæmi er tekið af Theresu May, innanríkisráðherra,  sem fjórum sinnum  hafi verið helsta myndefnið í tengslum við fréttaumfjöllun í rannsóknarmánuðinum. Þrisvar sinnum var notuð sama myndin sem sýndi ráðherrann áberandi grettna á svip. Fáar myndanna hafi sýnt konur ábúðarmiklar eða alvarlegar eins og títt er um karlkyns valdamenn.

Í rannsókninni en ennfremur vikið að fólkinu sem skrifar fréttirnar. Rannsakendur lögðust í hausatalningu á þeim blaðamönnum sem skrifuðu forsíðufréttir dagblaðanna níu. Karlar voru þar í miklum meirihluta. 78% forsíðufrétta reyndust skrifaðar af körlum og 22% af konum.

Athyglisvert er að skoða niðurstöðurnar eftir fjölmiðlum. Eftirtektarvert er að þrátt fyrir að viðskiptamiðlar séu oftast taldir hvað karllægastir skrifuðu konur um þriðjung forsíðufrétta í blaðið Financial Times (þær voru þó víst sjaldnast skráðar sem aðalhöfundar burðarfréttarinnar hjá blaðinu).

Líka er  áhugavert að sjá hversu sjaldan konur skrifa forsíðufréttir blaða eins og Independent og Guardian, sem hefði mátt ímynda sér að létu sig það varða að gera konum og körlum jafnt undir höfði.

Skýrsla Wij var kynnt í gær og allnokkrar umræður urðu um hana. Á fréttavef Guardian var að finna fréttaumfjöllun um rannsóknina, myndrænt fréttabloggdálkaskrif og umræður á hlaðvarpi.

Það er til fyrirmyndar hjá bresku fjölmiðlakvennasamtökunum að leggja í rannsókn sem þessa. Rannsóknin vekur umræðu um ýmis mál, t.d hvernig myndir af konum (líkt og Kate Middleton) eru notaðar í söluskyni. Slíkar umræður eiga heldur alls ekkert sérstaklega við um breska fjölmiðla. Þær eiga líka erindi hingað.

Raunar væri áhugavert að sjá sambærilega íslenska rannsókn á því hverjir skrifa fréttirnar í forgrunni fjölmiðlanna hér á landi og um hverja er þar fjallað. Erum við ef til vill ekkert svo ólík Bretum í þessu efni?

Kannski er þó engin ástæða til að bíða eftir íslenskri könnun. Það yrði ekki verra ef þessi breska rannsókn yrði íslenskum ritstjórnum og ritstjórum tilefni til að líta í eigin barm. Hvaða fréttir lenda fremstar og af hverju? Svo vitnð sé í blogg formanns Wij á Guardian í gær:

„Ef þú ættir að skipta einhverju jafnt á milli tveggja barna, myndirðu láta drenginn hafa 80% og stúlkuna svo fá afganginn?”

Þetta er góð spurning hjá henni og svarið augljóst, eða hvað?

3 athugasemdir við “Karlar, um karla, frá körlum, til …

  1. Bakvísun: Konur sem eitra líf mikilvægra karla | *knùz*

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.