#Notallporn: Hvers vegna skipta „góðu hliðarnar“ engu máli?

Höfundur: Jonah Mix

fjórir stafir og einn hnappur

Fjórir stafir, einn hnappur, ótal niðurstöður

Á titilsíðu vinsælustu klámvefsíðu í heiminum má sjá myndbönd með titlum sem valda mér ógleði. Þetta eru titlar á borð við Dumb Whore Loves to Fuck on Camera. Ghetto Asshole Fucked by White Cock, She Needs the Cash, He Needs the Pussy. Til að nálgast þetta efni þurfti ég að slá inn nokkra stafi í leitarglugga og smella einu sinni. Ef ég hefði bætt örfáum smellum við hefði ég fengið 100.000 titla af svipuðum toga í viðbót. Þetta er klám sem er aðgengilegt, nákvæmlega núna – og tölfræðin segir okkar að þetta sé það sem flestir karlmenn horfa á dags daglega. Það eru því engar ýkjur þegar ég segi að meirihluti karlmanna í Bandaríkjunum, og líklega víða annars staðar í heiminum, fái tilfinningalega og líkamlega útrás með því að horfa á efni sem væri flokkað sem hatursorðræða ef því væri beint gegn hvaða samfélagshóp öðrum en konum.

Við sem karlar sjáum hversu ofbeldisfullur klámiðnaðurinn er. Ef þú reynir að staðhæfa að þú sjáir það ekki bið ég þig að gera þetta fyrir mig: Farðu á upphafssíðu klámvefs og lestu titlana. Ef þú getur skaltu reyna að sjá ekki myndirnar sem með fylgja. Spurðu svo sjálfan þig: Tölum við svona um aðrar manneskjur? Notar fólk svona orðalag til að tala hvert um annað? Og minntu þig svo á að þetta eru ekki bara orðin tóm, heldur líka athafnir. Þetta er nokkuð sem karlar gera við konur – þetta eru karlmenn af holdi og blóði sem meiða lifandi konur í rauveruleikanum. Ég bið karla oft að gera þetta, að fletta upp þessum titlum, og ég hef oftar en einu sinni grætt mann með því. Það ætti í sjálfu sér ekki að vekja neinum undrun, því þegar kynferðislega þokan fær ekki lengur að byrgja manni sýn er varla hægt að gera neitt nema gráta þegar við sjáum hvernig við, sem karlmenn, komum fram við konur.

Því miður eru ekki allir karlar tilbúnir til að mæta þessari áskorun. Sumir þeirra eru nægilega heiðarlegir til að segja mér að þeim sé einfaldlega skítsama. Aðrir staðhæfa, þótt það sé augljóslega órökrétt, að það að kalla afþreyingarefni Black Teen Punishment sé í rauninni ekki hatursorðræða sem felur í sér bæði kynþáttahyggju og kvenfyrirlitningu. Flestir grípa þeir þó til hinnar gamalkunnugu varnarræðu: Jú, það er alveg rétt, þessi myndbönd eru ógeðsleg. Ég er alls ekki hrifinn af svona efni. En veistu, það er ekki allt klám svona. Þú ert bara að einblína á slæmu hliðarnar. Og auðvitað er það alveg rétt, strangt til tekið. Það er klámefni á markaðnum sem ekki fer alveg niður á þetta viðurstyggilega stig. Það gæti meira að segja verið hægt að finna myndbönd sem eru markaðssett sem „kvenvænt“ eða jafnvel „femínískt“ klám. Til að skýra hvers vegna sú rökfærsluleið er ekki bara slæm, heldur getur falið í sér nokkrar mjög ógnvekjandi hliðarverkanir, verðum við að taka stutt hlé og demba okkur út í heimspekina.

Nytjahyggjustærðfræði

teinavandamáliðKannast þú við hið fræga „Teinavandamál“ úr heimspekinni? Lest æðir í átt að stökum lestarvagni sem hefur staðnæmst á teinunum. Í vagninum eru fimm manneskjur sem munu nánast örugglega farast ef þú togar ekki í stöngina sem breytir stefnu lestarinnar yfir á aðra teina. Vandinn er sá að á þeim teinum er annar strandaður vagn, en bara með einni manneskju innanborðs. Á að toga í stöngina og valda dauða þessarar einu manneskju, eða aðhafast ekkert og láta þessa fimm í hinum vagninum farast?

Heimspekingar hafa velt vöngum yfir þessu áratugum saman. Og það skiptir engu máli hvort svarið þú aðhyllist, mergurinn málsins er sá að þessi ákvörðun, eins og gríðarlegur meirihluti allra ákvarðana sem við tökum, krefst þess að við framkvæmum það sem kallað er nytjahyggjustærðfræði (e. utilitarian calculus). Þetta hljómar eins og mjög torskilið fræðiorð en grunnhugmyndin að baki er nokkuð sem mannkynið hefur verið að kljást við frá örófi alda: Þegar við ákveðum hvað gera skal ætti að öllu jöfnu að vega og meta allar hugsanlegar afleiðingar til að sjá hver æskilegasta niðurstaðan verður. Ef við nálgumst „teinavandamálið“ frá þessu sjónarhorni hlýtur niðurstaðan að verða sú að við togum í stöngina, því hinn valkosturinn – að gera ekkert og láta fimm manns kremjast til bana – myndi leiða til meira heildartjóns.

Nytjahyggja rímar yfirleitt  nokkuð vel við þá siðferðislegu ramma, sem gjarnan byggja að mestu á heilbrigðri skynsemi, sem flest fólk lifir eftir. Þó eru fæst okkar það sem hægt væri að kalla hreinræktaða nytjahyggjusinna. Til dæmis myndu fæst okkar vera fáanleg til að valda einum einstaklingi, alveg saklausum, gríðarlegum sársauka, jafnvel þótt við værum sannfærð um að með því værum við að auka örlítið á gleðina og ánægjuna hjá öðrum í heiminum. Við erum öll bundin af því sem Robert Nozick kallaði „jaðartakmarkanir“ – reglum sem við verðum að beita þegar á athafnirnar sem útreikningarnir leiða til. Dæmi um slíkt eru almennar reglur, á borð við Ekki skaða saklaust fólk og Hugaðu fyrst að þeim sem eru verst staddir, eða sértækar reglur á borð við Ekki pynta fólk eða Ekki svíkja loforð. Þegar við vegum og metum allar hugsanlegar afleiðingar af tiltekinni ákvörðun (eða ákvörðun annarra) reynum við að finna þá lausn sem leiðir til jákvæðustu afleiðinganna fyrir alla hlutaðeigendur, innan þeirra marka sem við setjum okkur. Þetta eru engin geimvísindi.

Sá sem nöldrar yfir því að andstæðingar kláms einblíni bara á „vonda klámið“ er því í raun að segja að það sé, einhvers staðar, til „gott klám“ og að ekki sé hægt að kveða upp neinn dóm á grundvelli siðferðis varðandi gildi klámiðnaðarins nema taka þetta „góða klám“ með í reikninginn og leggja það á vogarskálarnar með hinu. Með öðrum orðum er verið að setja upp einfalt nytjahyggjustærðfræðidæmi – við tökum það góða og það slæma og leggjum það saman, beitum á það jaðartakmörkununum og gáum hvort útkoman er jákvæð eða neikvæð.

Flest okkar líta svo á að nauðgun, misnotkun, niðurlæging, kynþáttaníð, kvenhatur og afmennskun séu meðal þess versta sem fyrirfinnst í heiminum og þetta eru allt fyrirbæri sem klámiðnaðurinn er stútfullur af. Það mætti ætla að ef við værum á annað borð bundin af einhvers konar jaðartakmörkunum ættu þær að þjóna þeim tilgangi að skilgreina hluti eins og kynlíf sem hverfist um grimmd og ofbeldi sem óásættanlega. Flestar manneskjur myndu, væru þær spurðar, myndu fullyrða að nauðgun væri aldrei ásættanleg athöfn, jafnvel þótt manni tækist að setja upp einhverja afkáralega sviðsmynd þar sem nauðgunin gæti leitt til gríðarlegs ávinnings. En jafnvel þótt við köstuðum öllum takmörkunum frá okkur og beittum aðeins einfaldri, skrautlausri nytjahyggjustærðfræði, þar sem jöfnurnar eru „nautn“ og „sársauki“,þyrfti að draga fram eitthvað alveg fjári gott til að tryggja þér niðurstöðu sem flest venjulegt fólk myndi umhugsunarlaust samþykkja sem ásættanlega.

Og höfum þetta í huga þegar við spyrjum: Hvað hafa fylgismenn kláms fram að færa til að leggja á hinar vogarskálarnar til að vega upp á móti linnulausu flóðinu af grimmd, valdbeitingu, niðurlægingu og sársauka? Svarið er einfalt. Fullnæginguna!

Fullnægingar eru frábærar!

Fylgismenn kláms dæla upp úr sér endalausu bulli um að kanna lendur kynhvatarinnar og stuðla að frelsi í kynlífi og alls konar tískuorðum sem gætu vel fengið mann til að halda að það væri verið að tala um eitthvað annað og meira en fólk að ríða fyrir framan myndavél, en eigum við ekki bara að gangast við því að klám er fyrst og fremst tæki til að tryggja notandanum fullnægingu? Það er tilgangurinn, frá upphafi og til enda. Það þarf að sjálfsögðu ekki að þýða að það sé útilokað að koma fyrir einhvers konar listrænu efni eða persónulegri tjáningu – en við verðum að spyrja: Væri klámiðnaðurinn það markaðsveldi sem hann er ef körlum væri með einhverjum yfirnáttúrulegum hætti bannað að fróa sér á meðan þeir horfðu á klámið? Það skiptir engu hversu smekklega sviðsett „góða klámið“ væri, það mætti teljast gott ef það næði meira en sex smellum á netinu ef karlarnir vissu að þeir yrði ekki leyft að fá úr honum við lok myndbandsins.

Og nú megið þið ekki misskilja mig: Fullnægingar eru frábærar! Það er auðvitað ekkert sérstaklega róttækt við það að lýsa því yfir að maður sé fylgjandi fullnægingum. Það myndu hins vegar flestir staldra við þá fullyrðingu að fullnægingar sem slíkar, sama hversu margar og frábærar þær væru, geti réttlætt kynferðisofbeldi og kvenhatur. Og þegar upp er staðið er það sú fullyrðing sem karlmenn þurfa að setja fram til að standa með kláminu sínu. Þegar maður fer með karlmann í skoðunarferð um þá lífvana og grimmilegu veröld sem klámiðnaður samtímans hefur skapað, og fyrstu viðbrögð hans eru að skammast í manni fyrir að „einblína bara á slæmu hliðarnar og horfa fram hjá öllu því góða“ eru þeir í raun einfaldlega að segja: Jú, jú, það er svo sem rétt, en kannski var það samt alveg þess virði að láta nauðga henni.

réttlætisgyðjanÞess vegna spyr ég karlmenn sem styðja klám þessarar einföldu spurningar: Hvað fást margar fullnægingar fyrir hverja nauðgun, samkvæmt stærðfræðigreiningarnálguninni? Hvað fást mörg sáðlát fyrir hvern lemstraðan skrokk? Ef ein niðurlægð kona getur fróað tíu körlum, er það næg réttlæting? En ef þeir væru hundrað? Eða þúsund? Og ef tiltekinn iðnaður getur ekki þrifist án þess að tiltekið prósentuhlutfall kvennanna sem iðnaðurinn notar – jafnvel þótt það sé lítið hlutfall, til dæmis ein af hverjum fimmtíu – þurfi að þola alvarlegt kynferðislegt ofbeldi, líkamstjón og tilfinningalega misnotkun, hversu mikilvægur getur brundurinn úr þér verið, fyrst hann á að réttlæta áframhaldandi tilvist þess iðnaðar?

Og ef þú getur ekki rökstutt þessa réttlætingu, hvaða varnarrök eru þá eftir? Ég veit að þú ert líklega að hugsa: „Ja, það er hægt að njóta þess góða án þess að það slæma fylgi með. Við getum bara losað okkur við allt þetta ljóta þar til aðeins það góða verður eftir.“ En þá er spurningin þessi: Ert þú tilbúinn til að fresta allri klámneyslu þar til sá fyrirheitni dagur rennur upp, þegar klámiðnaðurinn hefur hreinsað út allar nauðganirnar, alla misnotkunina og allt kvenhatrið – þegar aðeins „góða klámið“ er eftir á netinu, svo langt sem stafræn augu okkar eygja? Ég held ekki, því ég held að innst inni trúi ekkert okkar því að sá dagur muni renna upp.

Er hægt að jafna út ofbeldi?

Ég skal vera alveg einlægur: Ég held að það sé ekkert „gott klám“ til. Ég veit fyrir víst að ég hef aldrei séð neitt slíkt. Í hreinskilni sagt veit ég ekki alveg hvernig það myndi líta út, ef ég rækist á það. Það er alla vega hvergi sjáanlegt á metsölulistum Adult Video Network og það ber ekkert á því á hillunum í kynlífsbúðunum og það er svo sannarlega ekki í vafrasögunni í tölvunum okkar. Það hræðilegasta er að það eina sem er erfiðara að finna en þetta meinta „góða klám“ eru karlarnir sem vilja raunverulega horfa á það og einhvern veginn grunar mig að karlarnir sem eru í óða önn að hlaða niður Brutal Bangz hafi litlar áhyggjur af því takmörkuðu framboði á feminískum valkostum í klámneyslu.

Klámiðnaðurinn hefur frá öndverðu byggt tilvist sína á upphafningu nauðgunarinnar. Allt frá baðhúsunum í Grikklandi til forna til tímaritsins Hustler hefur þróun kynlífs í formi neytendavöru verið ein samfelld raunasaga kúgunar karla. Ég hef gríðarlegar efasemdir um að nokkuð klámefni muni koma fram sem öllum að óvörum rýfur þessa tíu alda hefð. Ég ætla hins vegar að fullyrða að þótt ég sé ekki nema 99% viss um að það sé ekki til neitt gott klám er ég 100% viss um að það er ekki til neitt klám sem getur unnið bug á hungursneyð, fært þjóðum heimsins frið og leyst sívaxandi umhverfisvandamál Jarðarinnar – sem er eiginlega það eina sem mér gæti komið í hug sem myndi fara nærri því að réttlæta allt það grimmilega kynferðisofbeldi sem þarf að beita til að framleiða það. Og vitið þið hvað? Jafnvel það myndi ekki duga til að réttlæta það.

Næst þegar einhver segir að þú sért nú bara að „einblína á slæmu hliðarnar“ skaltu biðja hann að sýna þér góðu hliðarnar. Það þyrftu að vera alveg hreint frábærar hliðar, ekki satt? Biddu hann að sýna þér þetta undursamlega myndband sem réttir af hallann, þessa goðsagnakenndu .mp4-skrá sem bætir fyrir Ghetto Asshole Fucked by White Cock. Er það til? Getur sá maður horft upp á nauðganirnar, áföllin, þessa blygðunarlausu og grímulausu upphafningu kvenhaturs, og jafnað vogina með einhverju öðru og merkilegra en alveg sérlega magnaðri fullnægingu? Ef svo er ekki held ég að það sé orðið tímabært að við, sem karlmenn, tökum nokkur nytjahyggjustærðfræðiæfingar – til dæmis með dæmi þar sem við vegum nokkrar sekúndur af persónulegri ánægju upp á móti samkennd og mennsku okkar. Ég held að það ætti öllum að vera ljóst hvort vegur þyngra.

Þessi grein birtist fyrst hér og er birt á knúzinu með góðfúslegu leyfi. Halla Sverrisdóttir þýddi. Jonah Mix er aðgerðasinni sem vinnur einkum að því að virkja karlmenn til þátttöku í baráttunni gegn klámi, vændi og öðru kynferðisofbeldi. Hann skrifar pistla fyrir karlasíðu SPC (StopPornCulture), feminiscurrent.com og aðra miðla. Hann tístir á  @JonahPMix.

3 athugasemdir við “#Notallporn: Hvers vegna skipta „góðu hliðarnar“ engu máli?

 1. Það er ekki til neitt klám sem að réttlætir ofbeldið…. en það er til gott klám.

  En er það eðlilegt að ætlast til þess að það fólk sem að framleiðir góða klámið, af eigin vilja, réttlæti ofbeldið sem að verður til annarsstaðar? Þurfa framleiðendur góða klámsins virkilega að réttlæta tilvist slæma klámsins?

  Ef að nágranni minn er ofbeldismaður, þarf ég þá að vera meira en almennileg manneskja til að vega á móti vegna þess að við búum í sama húsi?

  Það er ekki erfitt að finna góða klámið, ef mann langar til þess.
  „Ethical porn“ er ágætis frasi til að gúgla.
  Mæli með framleiðundum eins og „Feck“ og síðunni „I feel myself“

  Svo er það líka þannig að þótt að óhugnanlegir titlar klámmynda séu til staðar, þá þarf ekki að vera um ofbeldi að ræða.
  Mæli með t.d. þessum pistli; http://www.xojane.com/sex/so-i-guess-im-a-pornstar-now

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.