Höfundur: Sigyn Blöndal
Mánudagsmorgunn, sól og blíða. Ég settist niður með kaffibollann minn, ein heima og áður en ég vatt mér í verkefni dagsins leyfði ég mér að vafra um undraheima internetsins um stund. Það eru forréttindi sem ég get ekki oft leyft mér vegna anna, svo ég ákvað að njóta þess að sjá hvað heimurinn hefði upp á að bjóða þennan fagra mánudag. Ég er ein af þeim sem „kommenta“ ekki sjálf á vefsíðum (en ég les komment annarra) og ég er ekki vön að vera með langa statusa á fésbókinni um það sem mætti betur fara í samfélaginu. Hingað til hefur mér ekki þótt það hafa neinn tilgang að deila með alþjóð ,eða öllum heiminum ef út í það er farið, því sem mér finnst þurfa að laga eða það sem er að angra mig sjálfa þann og þann daginn, en í dag varð breyting á.
Ég á tvö börn og mig langar til að leggja mitt að mörkum til þau verði einstaklingar sem þora, geta og vilja, vilja geta, vilja þora, þora að vilja o.s.frv. Sem sagt sjálfstæða einstaklinga með sterka réttlætiskennd og samkennd með öðru fólki, dýrum og náttúrunni. Samkennd með öllu og öllum sem við deilum jörðinni okkar með. Öll búum við saman , ekki alltaf í sátt og samlyndi en við verðum að reyna og gera okkar besta til að láta það ganga upp, það er okkar samfélagslega skylda. Þetta er okkur hjónunum hugleikið og það skiptir okkur máli að þetta skili sér í uppeldinu á börnum okkar, 9 og 4 ára.
Aftur að kaffibollanum og internetinu. Ég elska internetið og ég skil í rauninni ekki hvernig nokkrum tókst t.d. að fara í gegnum háskólanám án þess. Háskólanám, einmitt! Ég er í rauninni að kynnast internetinu almennilega sem fullorðin manneskja í gegnum mitt háskólanám. Ég lærði nefnilega vélritun á ritvél í 10. bekk og tók einn vetur í „tölvum“ í menntaskóla og útvarpið var aðalfjölmiðillinn á mínum uppvaxtarárum. Þar af leiðandi verð ég að viðurkenna að internetið hefur verið mér framandi seinustu ár og í rauninni veit ég ekki ennþá hvernig í ósköpunum þetta virkar, en veit hins vegar að það er mjög pirrandi þegar það virkar ekki. En internetið er ekki bara dásamleg veita fræðigreina og frétta. Við skiljum eftir okkur rafræn fingraför sem eyðast ekki og auðvelda flokkunarkerfi á okkur mannfólkinu og sú staðreynd hræðir mig. Herra Internet velur fyrir mig auglýsingar, fréttir og upplýsingar sem „hann“ er búinn að ákveða að höfði til mín. Þetta gerðist nú síðast í morgun (alls ekki í fyrsta skipti) og nú er mér nóg boðið af ýmsum ástæðum. Fjögurra ára dóttir okkar á nokkra leiki í iPad fjölskyldunnar, aðallega leiki sem stuðla að þroska hennar og hjálpa henni að læra stafi og auðveld reikningsdæmi. Í morgun fékk ég svo auglýsingu upp á skjáinn hjá mér um að tiltekin leikjasíða hentaði hennar aldri og því næst birtist slóð á skjánum (þýtt yfir á íslensku): heitir-leikir-fyrir-stelpur.com.
Ég hugsaði strax: „fyrir stelpur, hmmm af hverju ekki stráka líka?“ og ákvað að kíkja á þessa síðu og athuga málið. Þar sá ég einn hroðalegasta leik sem ég hef séð. Þetta er leikur sem er hvorki fyrir stelpur né stráka, bara ekki fyrir neinn. Leikurinn gengur þvert á öll mín gildi í uppeldinu, hvernig ég kem fram við aðrar manneskjur í veröldinni og það sem ég vil að börnin mín temji sér. Úff hvað mér brá, ég fékk gæsahúð og tár í augun og hugsaði hvert í ósköpunum er heimurinn að fara og hverjum dettur í hug að búa til svona leik. Hér er lýsingin á leiknum:
This unfortunate girl has so much extra weight that no diet can help her. In our clinic she can go through surgery called liposuction that will make her slim and beautiful. We´ll need to make small cuts on problem areas and suck out the extra fat. Will you operate her, Doctor?
Þetta eru hræðileg skilaboð sem við erum að senda út til barnanna okkar, sem eru enn í mótun. Þau læra að þetta ákveðna útlit (ákveðið af þessum leikjaframleiðanda) sé æðra öðru, fallegra en annað og til að teljast falleg/ur verðir þú að uppfylla þessi skilyrði. Eftir að ég var búin að þynna kaffið með tárum og hella upp á aftur ákvað ég að deila þessu á Facebook. Ég veit ekki endilega af hverju ég ákvað að bregða út af vananum en mig langaði að koma þessu út í samfélagið. Við verðum að vera á varðbergi gagnvart internetinu, sem er kannski staðreynd sem flestir vissu fyrir – en ég hélt alla vega í einfeldni minni að svona síður væru ekki áhyggjuefni fyrir foreldra. Svona leikir, sem eru hannaðir fyrir börn og eru á viðurkenndum leikjasíðum, eru mjög aðgengilegir og við verðum að vera á varðbergi. Margir þeirra ýta undir staðalímyndir og ógeðfellt flokkunarkerfi á manneskjum sem ætti ekki að eiga sér stað í upplýstu vestrænu samfélagi árið 2014.
Heilasellurnar eru búnar að vinna heilmikla yfirvinnu í dag og þetta er eitt af umhugsunarefnum dagsins hjá mér – kannski læt ég verða af því að skrifa smá pistil um öll hin líka. Ég held að það sé kominn tími fyrir okkur öll að þefa rækilega af kaffinu og vakna, eða eigum við ekki bara að hætta að þefa og einfaldlega sturta því í okkur? Girða okkur í brók og gera eitthvað? Ég er búin með heila könnu, er vel girt og ætla að kanna hvernig ég get gert heiminn örlítið betri. Tíminn er núna!